Morgunpósturinn

01. des. 2014 - 07:53

Morgunpóstur 1. desember 2014

Erlent Birtar voru tvær PMI vísitölur fyrir nóvember í Kína í nótt. Hin opinbera mældist 50,3 í stað 50,4 í október en vísitala HSBC var 50,0, óbreytt frá fyrri mánuði. Tölurnar þykja staðfesta enn frekar hægingu kínverska hagkerfisins. PMI fyrir Japan var einnig birt og var 52,0 stig, óbreytt á milli mánaða. Olíuverð á heimsmarkaði hélt áfram að lækka í morgun. Brentolía endaði föstudaginn í 70,15 USD fatið eftir að hafa farið undir 70 fyrr um daginn. Lækkun dagsins 2,43 USD og vikunnar 10,21 USD. Rússneska rúblan og norska krónan féllu mikið í vikunni. Evrópusambandið gaf Frökk­um, Ítölum og Belg­um fyrir helgi þriggja mánaða frest til þess að bæta úr rík­is­fjár­málum sínum. Ef ríkj­un­um tekst ekki að bæta stöðu þeirra fyr­ir mars eiga þau yfir höfði sér refsiaðgerðir. Fjög­ur ríki til viðbót­ar ná ekki viðmiðum ESB; Spánn, Malta, Aust­ur­ríki og Portúgal. Tólf mánaða verðbólga á evrusvæðinu mældist 0,3% í nóvember og lækkaði úr 0,4% í október. Lækkun orkuverðs mun hafa mest um þessa þróun að segja. Atvinnuleysi á svæðinu mælist nú um 11,5% og er óbreytt frá fyrra mánuði. Atvinnuleysi í stærsta hagkerfi svæðisins, Þýskalandi, er þó í sögulegu lágmarki í 6,6%. Innlent Aflaverðmæti íslenskra skipa í ágúst var 7,1% meira en í ágúst 2013. Aflaverðmæti botnfiskafla jókst um 27%. Á 12 mánaða tímabili frá september 2013 til ágúst 2014 dróst aflaverðmæti íslenskra skipa saman um 9,7% miðað við sama tímabil ári fyrr. Aukning varð í verðmæti þorskafla um 9,1% og ýsuafla 4,4%, en samdráttur varð í flatfiski, skelfiski og uppsjávarafla. Í október voru fluttar út vörur fyrir 61,2 ma.kr. og inn fyrir 50,4 ma.kr. (fob).Vöruskiptin voru því hagstæð um 10,8 ma.kr. Á sama tíma í fyrra voru þau hagstæð um 8 ma.kr. Fyrstu tíu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir tæpa 488 ma.kr. en inn fyrir 494,9 ma.kr. Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 6,9 ma.kr. en á sama tíma í fyrra voru þau hagstæð um 31,7 milljarða. Vísitala framleiðsluverðs í október hækkaði um 1,2% frá september. Vísitalan fyrir sjávarafurðir hækkaði um 2,0% og vísitala fyrir stóriðju hækkaði um 0,7%. Vísitalan fyrir matvæli hækkaði um 0,7% og vísitala fyrir annan iðnað hækkaði um 0,8%. Á 12 mánuðum hefur vísitala framleiðsluverðs hækkað um 6,5% en verðvísitala sjávarafurða hækkað um 4,1%, stóriðju um 12,1% og matvælaverð hefur hækkað um 0,9%.

Til þess að sjá alla greinina þarftu að vera áskrifandi.
Gerast áskrifandi
  • IFS
  • Suðurlandsbraut 24
  • 108 Reykjavík
  • Sími: 533 4600
  • Fax: 533 4601
  • ifs@ifs.is