Morgunpósturinn

15. des. 2014 - 08:41

Morgunpóstur 15. desember 2014

Erlent Hlutabréfamarkaðir í Asíu voru heldur upp í nótt en evrópskir markaðir eru blendnir í morgunsárið. Mikill fókus er nú á þróun olíuverðs og áhættufælni hefur aukist. Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum og Evrópu lækkuðu á föstudaginn þrátt fyrir nokkra hækkun í Asíu nóttina á undan. S&P 500 átti lélegustu viku í tvö og hálft ár. Áframhaldandi lækkun olíuverðs og efnahagsdoði í helstu hagkerfum utan Bandaríkjanna er fyrst og fremst kennt um þróunina. Brent hráolía lækkaði um 2,6% á föstudag, niður í 61,82 dollara fatið, eftir útgáfu nýrrar spár um minni vöxt eftirspurnar á næsta ári en áður var talið. Hefur Brent nú lækkað um 46% frá hámarki sínu í júní sl. Það er mesta lækkun vörunnar síðan árið 2008 og þriðja mesta niðursveifla hennar síðustu þrjá áratugi. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti fjárlagafrumvarp til loka september á næsta ári á elleftu stundu fyrir helgi. Framvarpið hljóðar upp á 1,1 trilljón dollara. Peningastefnunefnd bandaríska seðlabankans kemur saman á miðvikdaginn í síðasta sinn á þessu ári. Margir greinendur spá því að nefndin muni gefa frekari vísbendingar um hækkunarferli stýrivaxta á næsta ári að loknum fundi en Nóbelsverðlauna-hafinn Paul Krugman telur að bankinn muni ekki hækka þá allt næsta ár. Innlent Regluleg laun voru að meðaltali 1,4% hærri á þriðja ársfjórðungi 2014 en á ársfjórðungnum á undan. Frá fyrra ári hækkuðu laun um 6,3% að meðaltali, hækkunin var 5,9% á almennum vinnumarkaði og 7,6% hjá opinberum starfsmönnum. Þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 6,8% en 8,4% hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna 365 og Tals á föstudaginn. Í fréttatilkynningu segir að í kjölfar sameiningarinnar verði hægt að bjóða upp á nýjungar sem ekki hafi áður sést á fjarskiptamarkaðnum og að nýjar áherslur sameinaðs félags verði kynntar strax á nýju ári. Viðburðaríkt ár virðist framundan í fjarskiptum og dreifingu afþreyingarefnis en Síminn stefnir á skráningu á kauphöll á vormánuðum og hefur unnið að stefnumótun undanfarið. Skráð atvinnuleysi í nóvember var 3,3%, en að meðaltali voru 5.430 atvinnulausir. Á sama tíma í fyrra var það 4,1%. Atvinnuleysi var 3,5% á höfuðborgarsvæðinu en 3% á landsbyggðinni. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 5,1%. Minnst var atvinnuleysið á Vesturlandi, 1,9%.

Til þess að sjá alla greinina þarftu að vera áskrifandi.
Gerast áskrifandi
  • IFS
  • Suðurlandsbraut 24
  • 108 Reykjavík
  • Sími: 533 4600
  • Fax: 533 4601
  • ifs@ifs.is