Morgunpóstur 20. október 2014
Erlent • Hlutabréf í Asíu hækkuðu í nótt, í kjölfar bolamarkaðar í Bandaríkjunum á föstudag. Nikkei vísitalan hækkaði um 3,4%, sem er með mestu dagsbreytingum og MSCI vísitala hlutabréfa í Asíu utan Japans hækkaði um 1,3%. Nikkei lækkaði hins vegar um 5% í síðustu viku. Evrópsk hlutabréf hafa gefið aðeins eftir nú í morgunsárið. • S&P 500 hlutabréfavísitalan lækkaði um 1% í liðinni viku, sem er fjórða vika lækkunar í röð. Þrátt fyrir það hækkaði hún um 1,3% á föstudaginn þegar ýmsar góðar fréttir bárust. Þar má m.a. telja óvænta niðurstöðu í mælingu á bjartsýni bandarískra neytenda, sem reynist vera sú mesta í sjö ár, góðar uppgjörstölur félaga og vonir um að bandaríski seðlabankinn framlengi kaup sín á skuldabréfum á markaði (QE3). S&P 500 er nú 6,2% frá hágildi sínu fyrir mánuði síðan. Innlent • IFS birti afkomuspá fyrir 3. ársfjórðung og árið hjá Össuri á föstudag. Við spáum um 126m dollara tekjum hjá félaginu á 3F og 25,6m dollara EBITDA. Fyrir árið spáum við um 511m dollara tekjum og 102m dollara EBITDA. Góður gangur er nú í rekstri félagsins eftir nokkuð strembið tímabil. Félagið birtir niðurstöður fjórðungsins á fimmtudaginn, 23. október. • IFS gaf á föstudag út verðbólguspá sína fyrir októbermánuð. Hún hljóðar upp á óbreytt verðlag frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir helst tólf mánaða verðbólgan einnig óbreytt í 1,8%. Verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli hækkar úr -0,2% í 0,5%. Hagstofan birtir verðbólgutölur miðvikudaginn 29. október. • IFS birti vikuyfirlit sitt fyrir skuldabréfamarkaðinn á föstudag. Velta óverðtryggðra ríkisskuldabréfa í vikunni nam 14,4 mö.kr. og hækkaði ávöxtunarkrafa styttri bréfanna meira en þeirra löngu. Mest hækkaði krafa RIKB 15 eða um 13 punkta. Velta verðtryggðra ríkisskuldabréfa nam 2,0 mö.kr. og íbúðabréfa 8,0 mö.kr. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkaði um 4 punkta og íbúðabréfin hækkuðu lítillega í kröfu. Verðbólguálag til fimm ára hefur hækkað um 10 punkta í vikunni og er nú 3,06%.